Meðhöndlun ullar

Rúningur og flokkun ullar eru lykilskref í ullarvinnsluferlinu. Gæði hráefnisins er undirstaðan fyrir allt sem á eftir kemur. Ull er hægt að nýta á margvíslegan hátt. Mismunandi flokkar eru notaðir í mismunandi verkefni. Því er mikilvægt að rétt sé staðið að flokkun. Leitast er eftir því að ullin sé flokkuð í sem einsleitasta flokka og unnt er, þannig nýtast eiginleikar hráefnisins best.

Með það að markmiði að auka gæði og verkmæti íslensku ullarinnar og vinna að því mýkja íslenska bandið hefur nýjum flokk verið bætt við í hvítri haustull, H-3-H. Auk þess hefur verið skilgreindur sérflokkur fyrir hvíta snoðull, H-Snoð og sérflokkur fyrir mislita lambsull, M-2-L. Mælst er til þess að þessar leiðbeiningar verði lesnar að fullu áður en rúningur hefst.

Undirbúningur og vinnulag

Sauðfé

Mjög mikilvægt er að féð sé hreint og þurrt þegar rúið er til þess að tryggja að ullin haldist óskemmd. Reynt skal að komast hjá því að taka fé á hús áður en það er rúið. Hýsing í nokkra daga áður en rúið er getur spillt ullinni verulega og veldur því jafnan að fyrsta flokks ull verður annars flokks. Eftir föngum skal forðast að gefa fénu til þess að komast hjá heymori í ullinni. Ull með heymori telst ekki fyrsta flokks. Ull með mjög miklu mori skal setja í úrkast.

Best er að forflokka féð áður en rúið er, þannig að lömb séu sér og mislitt og hvítt fé aðskilið. Auk þess getur verið hentugt að flokka hvíta féð í tvennt. Annars vegar vel hvítt fé með gallalitla ull sem ætti að flokkast að mestu í H-1-H. Hins vegar hvítt fé með lakari ull þ.e. fé með gulleita ull eða aðra minni háttar galla en sú ull ætti að flokkast að mestu í H-2-H.

Aðstaða og skipulag

Séð skal til þess að vinnuaðstaða sé hrein, þurr og allir lausir munir fjarlægðir, á það einnig við um réttir og hús. Einnig skal séð til þess að verkfæri séu hrein áður en hafist er handa við rúning.

Ullarreyfin skulu vera flokkuð jafnóðum og rúið er. Sá sem flokkar ullina þarf að geta tekið hvert reyfi upp á stórt flokkunarborð til þess að flokka í sundur betri og lakari ull og taka frá gallaða ull. Nauðsynlegt er að hafa gott ljós!

Poka skal hafa við hendina til að taka við flokkaðri ull og úrkasti. Mikilvægt er að halda aðstöðunni hreinni og sópa reglulega. Hreinsa þarf aðstöðuna sérstaklega vel þegar farið er á milli lita.

Það er mikilvægt að ekki fari meira en 20-25 kg af ull í poka!

Rúningur – skipulag

Hvíta féð á alltaf að rýja fyrst! Þannig er komið í veg fyrir að hvít ull mengist af dökkum hárum (hvít litmenguð ull flokkast í M-2). Réttast er að byrja á hvítum lömbum og taka síðan hvítar ær en allt mislitt fé á eftir. Einnig þarf að gæta þess að litasmit verði ekki í sauðalitunum, sérstaklega ber að varast að hvít ull blandist við sauðalitina.

Við rúning skal byrja á því að taka frá litaða ull (sprey litir), kviðull og hnakkahár.

Flokkun

Ullarreyfin skulu flokkuð jafnóðum og rúið er. Reyfin skulu metin á stóru borði undir góðu ljósi.

Flokkun á bestu flokkunum, H-1-L, H-1-H og hreinum sauðalitum (M-S, M-G, M-M) er tímafrekust þar sem þessir flokkar eiga að vera gallalausir (sjá frekari umfjöllun og töflu í ,,Flokkun og galla” og lýsingu á göllum. Flokkunin ætti ekki að vera tímafrek ef skipulagið er gott.