Ullargallar
Hér er dæmi um ýmsa galla sem hafa áhrif á gæði ullar og mikilvægt er að flokka rétt eða fjarlægja.
Heymor
Lýsing
Hey, strá og annað lífrænt efni sem smitast hefur við heygjöf.
Af hverju er þetta galli
Þessi óhreinindi festast og flækjast illa við ull þannig að það er erfitt að fjarlægja slíkt við þvott og ullarvinnslu. Rýja skal eins fljótt og hægt er þegar fé er tekið á hús. Heymor er algengur galli sem fellir ull úr fyrsta flokk í annan. Ull með miklu heymori er ónothæf og á að fara í úrkast.
Flokkun
Hagamor
Lýsing
Lyng, mosi, strá og annað lífrænt efni sem hefur fest við ullina út í haga.
Af hverju er þetta galli
Þessi óhreinindi festast og flækjast illa við ull þannig að það er erfitt að fjarlægja slíkt við þvott og ullarvinnslu.
Flokkun
Húsvistarskemmdir
Lýsing
Þegar fé er tekið á hús byrja óhreinindi strax að setjast í ullina, sérstaklega á lærum og kvið. Ef rakt er í húsum gerist þetta mjög hratt og togendarnir verða mjög óhreinir og skemmast með tímanum. Húsagulka er fyrsta stig húsvistarskemmda.
Undir vægar húsvistarskemmdir flokkast húsvistarskemmdir sem ekki enn hafa skemmt togendana, svo sem húsagulka.
Af hverju er þetta galli
Dökkir togendar verða ekki hvítir við þvott og valda því að ullin verður gulleit eftir þvott sem takmarkar notagildi ullarinnar.
Flokkun
Hlandbruni
Lýsing
Hlandbruni er skemmd á ullarhárum vegna mikilla óhreininda sem setjast í ullina í rökum húsum. Ullin tekur í sig ammoníak úr þvagi sem skemmir ullina.
Af hverju er þetta galli
Hlandbrunnin hár eru dökk rauðbrún fyrir þvott og áfram dökkgul eftir þvott. Jafnframt eru hárin stökk og brotna við meðhöndlun þannig að ullin tapar styrkleika.
Flokkun
Kleprar
Lýsing
Skítakögglar sem eru fastir í ullinni – kemur oftast fyrir í læraull. Þá skal taka frá og setja í úrkast.
Af hverju er þetta galli
Skítakleprar eru ekki hráefni til ullarvinnslu. Þvost ekki úr nema að hluta.
Flokkun
Mýrarrauði
Lýsing
Rauðlituð ull eftir mengun af mýrarrauða í beitilandi.
Af hverju er þetta galli
Mýrarauði þvæst ekki úr ullinni og hún verður gulbrún eftir þvott og hentar ekki í vinnslu á hvítri ull.
Flokkun
Blökk ull
Lýsing
Ull sem er orðin blökk/dökkleit vegna óhreininda sem ullin hefur tekið í sig úti. Gerist m.a. á haustin í rigningartíð. Ef hægt er að þvo ullina hvíta með volgu sápuvatni þarf ekki að fella ull.
Af hverju er þetta galli
Mjög blökk ull verður ekki hvít við þvott og nýtist eingöngu í litaðar vörur.
Flokkun
Mjög eðlisgul ull
Lýsing
Ull af kindum sem eru áberandi gular og mikið um gul hár í reyfinu. Einnig áberandi gul ull af jöðrum reyfis af kindum sem eru gular á fótum og dindli.
Af hverju er þetta galli
Eðlisgul ull er áfram gul eftir þvott og hentar ekki í vinnslu á hvítum og ljósum vörum.
Flokkun
Dökk hár í hvítri ull
Lýsing
Dökk hár koma af svörtum doppum eða blettum á hvítum kindum. Sjást best strax eftir rúning. Einnig dökk hár sem hafa mengað hvíta ull ef mislitar kindur eru rúnar á undan hvítum á sama stað.
Af hverju er þetta galli
Hvít ull hefur mest notagildi, þar sem hægt er að nota hana í flesta liti. Dökk hár geta verulega lækkað verð sem fæst fyrir ullina.
Flokkun
Spreylitir
Lýsing
Litir í ull eftir sprey eða aðra liti.
Af hverju er þetta galli
Það má vera að það standi á spreybrúsanum að það sé hægt að þvo þetta. Því miður næst þetta illa út. Það vill engin spreylit í lopanum sínum.
Flokkun
Þófin ull
Lýsing
Ull getur þófnað á kindum í raka og núningi og þá er ekki hægt ná henni auðveldlega í sundur. Létt þófinni ull má ná í sundur með höndum. Harðþófin ull er ekki nýtanleg.
Af hverju er þetta galli
Ef ekki er hægt að taka ullina í sundur þá er illa hægt að vinna hana. Mjög þófin ull geta líka skemmt tæki og tól. Hægt er að tæta léttþófna ull í sundur og nýta en ullarhárin slitna við tætingu og ullin nýtist verr en greið ull.
Flokkun
Þófasneplar
Lýsing
Þófasneplar eru litlir sneplar af þófinni ull. Litlir þófasneplar eru minni en hálfur þumall. Stærri sneplar og harðþófnir skulu fara í úrkast.
Af hverju er þetta galli
Það er erfitt að leysa sundur þófasnepla, þannig að ekki er hægt að nota þá í bandframleiðslu.
Flokkun
Gróft tog
Lýsing
Tog og þel eru ólíkar háragerðir sem einkenna íslenska ull. Tog er alltaf mun grófara en þel en samt misjafnt. Læraull er nær alltaf mjög toggróf og sumar kindur eru með toggrófa ull að eðlisfari.
Af hverju er þetta galli
Gróft og langt tog spillir spunaeiginleikum ullarinnar. Ekki er hægt að spinna fíngert band úr grófri ull. Gróf ull er alltaf verðminni en fíngerð ull.
Flokkun
Tvíklippur
Lýsing
Tvíklippur myndast þegar klippum er rennt tvisvar í sama farið og til verða mjög stutt ullarhár í seinni umferðinni.
Af hverju er þetta galli
Mjög stutt hár virka illa í spuna. Þau mynda hnökra og spilla gæðum.
Flokkun
Tvíreyfi
Lýsing
Tvíreyfi er af kindum sem hafa gengið í tveimur reyfum og ekki verið rúnar á eðlilegum tíma. Ný ull vex undir gamla reyfinu og reyfin þófna saman.
Af hverju er þetta galli
Þetta er mjög þófið og ekki vinnsluhæf ull.
Flokkun
Snoðkápa
Lýsing
Snoðkápa myndast ef snoðið er ekki rúið af fé að vori og snoðið þófnar utan á nýju ullinni. Hægt er að forðast vandann með því að klippa snoðkápu utan af reyfinu snemma að hausti og rýja síðan á venjulegum tíma að hausti
Af hverju er þetta galli
Þófin kápa utan á haustreyfi veldur því að ullin verður ónothæf til vinnslu og skal setja í úrkast.
Flokkun
Hnakkahár
Lýsing
Hnakkahár eru stutt hár sem vaxa í hnakkanum. Þau eru stutt og stíf og ekki eiginleg ullarhár. Mjög algengt er að hnakkahárin séu dökkgul. Rétt er að henda hnakkalagðinum frá við rúning og láta hann aldrei fara saman við reyfið.
Af hverju er þetta galli
Gul hnakkahár sem blandast við ulllarreyfið geta stórspillt ullinni vegna litarmengunar. Hnakkahárin eru auk þess stutt og gróf og ekki spunaefni.